Þannig eignumst við nýja vini

Er erfitt að stofna til vináttu? Þá eru vísindamennirnir boðnir og búnir að hjálpa til. Þeir hafa beitt nokkrum vísindalegum rannsóknum til að komast að raun um fimm áhrifaríkar aðferðir sem auka líkurnar á myndun traustra vináttubanda.

BIRT: 23/10/2023

LESTÍMI:

4 mínútur

Samtal

 

Leyfðu öðrum að tala um sjálfa sig

Áhrif: Spurningar virkja umbunarstöðvar heilans
Hvers vegna?

Öllum hugnast best að tala um sjálfa sig. Heilasneiðmyndir hafa leitt í ljós að umbunarstöðvar heilans verða langtum virkari en ella þegar við fáum tækifæri til að tala um okkur sjálf en þegar við tölum um aðra eða um einfaldar staðreyndir. Áþekk heilastarfsemi á sér stað þegar við borðum eða stundum kynlíf.

 

Við færum með öðrum orðum viðmælandanum mikla nautn með því að leyfa honum að tala. Aðrar rannsóknir hafa jafnframt leitt í ljós að fólk álítur okkur vera elskulegri en ella ef við leitum álits hjá því.

 

Hvernig?

Haldið ykkur eilítið til hlés og leggið spurningar fyrir væntanlegan vin ykkar. Gætið þess að hlusta gaumgæfilega til þess að unnt verði að fylgja samtalinu eftir þegar þið næst hittist. Hafið í huga að ekki er um að ræða samkeppni milli ykkar og því er mikilvægt að hafa í huga að nefna það aðeins lauslega ef hinn aðilinn nefnir eitthvað sem skiptir ykkur máli og gætið þess jafnframt að taka ekki stjórnina í samtalinu og reynið að grípa ekki fram í fyrir nýja vininum.

 

Góðir hlustendur gleðja ekki einatt viðmælandann, heldur kynnast þeir honum jafnframt betur með þessu móti og auka líkurnar á að góð vinátta myndist.

 

 

Heiðarleiki

 

Gefið af ykkur

Áhrif: Heiðarleiki tengir ykkur sterkari böndum.
Hvers vegna?

Vísindalegar rannsóknir hafa leitt í ljós að flestir öðlast meiri samkennd með fólki sem talar opinskátt um sjálft sig fremur en fólki sem heldur sig til hlés og vill ekki segja frá sjálfu sér.

 

Tengslin verða að sama skapi gagnkvæm sem táknar að okkur fer að líka betur við þá sem við höfum deilt með okkar innstu löngunum og þrám. Tilraunir hafa að sama skapi leitt í ljós að þeir vinir sem skiptast á nánum upplýsingum mynda sterkari vinasambönd en ella.

 

Hvernig?

Kurteisishjal kann að vera góð leið til að hefja samræður við nýjan kunningja en ef ykkur langar að kynnast viðkomandi betur og þið hafið á tilfinningunni að þarna gæti verið kominn nýr góður vinur þá er ráðlegt að sleppa yfirborðshjalinu og leiða talið að persónulegri málefnum.

 

Talið heiðarlega um líðan ykkar, hvað gleður ykkur eða hræðir og gætið þess að sýna ekki einvörðungu ykkar sterku hliðar heldur einnig veiku hliðarnar.

Skapgerð

 

Leitið uppi þá sem hafa svipuð áhugamál og þið

Áhrif: Áþekkar skapgerðir auka líkur á vináttutengslum.
Hvers vegna?

Mýmargar rannsóknir hafa gert uppskátt að góð vinátta myndast gjarnan milli einstaklinga sem líkjast hvor öðrum hvað áhrærir aldur, menntun og áhugamál en einnig skapgerðareinkenni á borð við einlægni og skyldurækni.

 

Þó kom í ljós í rannsókn einni frá árinu 2004 að líkindin kunna oft að vera hulin á bak við það sem í fljótu bragði gæti virst vera ólíkt. Þegar við kynnumst nýju fólki er fyrir bragðið brýnt að verja tíma saman til þess að komast að raun um hvort við eigum eitthvað sameiginlegt.

 

Hvernig?

Þið getið aukið líkurnar á að eignast góða vini með því að leita uppi samneyti við þá sem hafa svipuð áhugamál og gildi og þið sjálf. Þið getið t.d. skráð ykkur í félag, byrjað að stunda íþróttir, farið í tungumálatíma eða tekið þátt í sjálfboðastarfi, svo fremi þið sjálf hafið áhuga á einhverju af ofangreindu.

 

Þá eru líkur á að þið hittið aðra sama sinnis og reglubundin samveran gerir það jafnframt að verkum að þið hafið tök á að kynnast hægt og rólega.

 

 

Þolinmæði

 

Verjið miklum tíma í vináttuna

Áhrif: 300 klukkustunda samvera leiðir af sér nána vináttu.
Hvers vegna?

Ást við fyrstu sýn kann að vera draumsýn en vinátta við fyrstu sýn er enn ólíklegri ef eitthvað. Vináttumyndun tekur sinn tíma og því meiri tíma sem við verjum með vininum, þeim mun traustari verður vináttan.

 

Í rannsókn sem unnin var árið 2019 kom t.d. í ljós að námsmenn fóru ekki að líta á hver annan sem vini fyrr en þeir höfðu varið 50 klukkustundum saman. Til þess að geta talist góðir vinir þurftu þeir að eyða 150 tímum saman og náin vinátta krafðist minnst 300 stunda samveru.

 

Hvernig?

Nauðsynlegt er að verja tíma í að eignast nýja vini, jafnvel þótt það bitni á öðru því sem þið takið ykkur fyrir hendur. Þið verðið með öðrum orðum að færa fórnir. Ef þið t.d. flytjið í annað bæjarfélag getur verið freistandi að leita aftur í gamla vinahópinn um helgar en það takmarkar hins vegar líkurnar á að ný vinasambönd myndist.

 

Jafnvel væri hægt að líta á myndun nýrra vinatengsla sem eins konar vinnu og taka frá tíma í dagbókinni sem ætlaður er því að eignast nýja vini.

 

 

Augnsamband

 

Lítið undan eftir þrjár sekúndur

Áhrif: Skammvinnt augnsamband er trúverðugt.
Hvers vegna?

Augnsamband kann bæði að virðast aðlaðandi og fráhrindandi á aðra. Rannsókn ein leiddi m.a. í ljós að við finnum fyrir samhug ef einhver óþekktur horfir stutta stund í augu okkar og brosir. Þetta getur hins vegar orkað tvímælis því ef sá ókunnugi endurgeldur ekki augngoturnar þá er jákvæðara fyrir okkar að sýnast svipbrigðalaus umfram það að brosa.

 

Þá hefur það einnig sýnt sig að við virðumst ótrúverðug ef við horfum beint í augu annars í meira en þrjár sekúndur.

 

Hvernig?

Reynið að sýnast vingjarnleg og sýnið viðmælandanum áhuga með því að líta í augu hans öðru hvoru og brosa jafnframt svolítið. Gætið þess þó að brosa ekki of mikið, né heldur að ýkja brosin en slíkt gæti haft þveröfug áhrif. Viðmælandanum kynni þá að virðast þið vera að glápa á sig eða álitið ykkur vera óþægileg.

 

Í flestum tilvikum er unnt að virðast vera álíka elskulegur með því að vera jákvæður og fullur eftirtektar í samræðunum.

BIRT: 23/10/2023

HÖFUNDUR: GORM PALMGREN

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: © Shutterstock & Lotte Fredslund

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.