Fimm þýskir vísindamenn héldu yfir landamæri Indlands og Tíbet árið 1938. Meðferðis á múldýrum höfðu Þjóðverjarnir m.a. ljósmyndabúnað, svo og áhöld fyrir nákvæmar höfuðkúpumælingar.
SS-foringinn Heinrich Himmler hafði skipulagt leiðangurinn með stuðningi sjálfs Adolfs Hitler. Samkvæmt kynþáttakenningum nasista voru hávaxnir, ljóshærðir aríar eftirsóknarverðasti kynþátturinn og vísindamennirnir hugðust sanna með höfuðkúpumælingum innfæddra að Tíbetar væru arískir að uppruna.
Ef marka mátti Himmler og Hitler áttu aríar rætur að rekja til Atlantis, þjóðsagnaeyjarinnar sem sögð er hafa horfið í sæ í flóðbylgju. Nasistarnir höfðu á takteinum ýmsar ólíkar kenningar um örlög þessara aría.
Ein tilgátan var sú að þeir aríar sem komist hefðu lífs af hefðu flust búferlum til Norður-Evrópu og eignast þar afkomendur áður en þeir fluttust áfram upp á hálendið í Tíbet. Önnur tilgátan hljóðaði á þann veg að aríarnir hafi farið rakleitt til Tíbet og þaðan hefðu svo sumir afkomenda þeirra haldið áfram til Norður-Evrópu.
Norræni kynstofninn væri frá Tíbet
Einn helsti vísindamaðurinn í teymi Himmlers var mannfræðingurinn Bruno Beger. Hann hugðist mæla höfuð Tíbetanna og gera gifsafsteypur af þeim en ef marka mátti nasista hafði hver kynþáttur yfir sínu einstaka höfuðlagi að ráða.
Beger lýsti hlutverki vísindamannahópsins á þann veg í minnisblöðum sínum:
„Að safna saman upplýsingum um hlutföll, uppruna, merkingu og þróun norræna kynstofnsins á þessu tiltekna svæði“.
Vísindamennirnir rannsökuðu líffæri Tíbeta, m.a. höfuð þeirra, af mikilli nákvæmni.
Starfið stöðvaðist þegar síðari heimsstyrjöld braust út árið 1939.
Ef marka má vinnuplögg Begers tókst honum að taka mál af alls 376 Tíbetum, taka 2.000 ljósmyndir og „gera afsteypur af höfði, andliti, höndum og eyrum sautján einstaklinga“.
Þegar öldungadeildarþingmaður lætur lífið í flugslysi tekst FBI að afhjúpa samsæri gegn bandarísku alríkisstjórninni.
Gögnin glötuðust að einhverju leyti meðan á stríðinu stóð. Þau gögn sem varðveittust eru til sýnis á söfnum í Þýskalandi og Bandaríkjunum í dag.
Vísindamönnum á vegum Heinrichs Himmler tókst vitaskuld aldrei að færa sönnur á að Tíbetar væru afkomendur aría frá Atlantis.